Hvernig á ég að byrja

Hvernig flugnám hefst

Einkaflugmaður

Best er að byrja á því að bóka kynnisflug hjá flugdeild Flugskóla Íslands.

Afgreiðsla flugdeildarinnar úthlutar þér tíma, flugvél og flugkennara.  Hafðu samband við verklegu afgreiðslu skólans í síma 514 9410, farsíma 825 1500 eða flightdesk(hjá)flugskoli.is.

Áður en námið hefst að fullu og í síðasta lagi fyrir fyrsta einliðaflug ( sólóflug ) þarf flugneminn að verða sér úti um heilbrigðisvottorð hjá tilnefndum fluglæknum.  Nánari upplýsingar um það má finna á síðunni Læknisskoðun.

Flugneminn gerir námsmannasamning við Flugskóla Íslands.  Þar með hefst nám til einkaflugmanns. Kennarinn flýgur með þér eftir fyrirfram samþykktu ferli fyrst um sinn og sendir þig svo eina(n) í æfingaflug, þegar þú hefur náð tiltekinni hæfni. Það er nefnt fyrsta einliðaflugið eða fyrsta sólóflugið.  Við það öðlast flugneminn rétt til að fá flugnemavottorð,  sem bundið er við einkaflugmannsnám hjá Flugskóla Íslands og gefið út af skólanum.  Hér á árum áður, sáu yfirvöld um þá framkvæmd, en það hefur færst á hendur flugskóla sbr. reglugerðir.

Flugnemi þarf að sitja u.þ.b. 10 vikna bóklegt námskeið til einkaflugmanns, sem kennt er oftast á kvöldin frá 18:00 til 22.00.  Á sumrin er þó stundum boðið upp á styttri námskeið, 8.vikur, sem kennt er frá 16:30 til 22:00 virka daga. Að loknum prófum hjá skólanum, er nemanda veitt prófaheimild til próftöku í bóklegum greinum hjá Samgöngustofu. Fögin eru 9 að tölu og verður nemandinn að standast þau með að lágmarki 7,5 eða 75% í hverju fagi.

Þegar flugneminn hefur náð tiltekinni færni og hefur lokið öllum bóklegum prófum með fullnægjandi hætti hjá Samgöngustofu,er komið að lokaprófi hjá prófdómara.  Prófdómarinn hefur leyfi Samgöngustofu til prófana á flugmönnum eftir fyrirfram ákveðinni forskrift að prófum.  Ef nemandinn stenst það próf einnig, getur nemandinn að lokum sótt um flugskírteini til Samgöngustofu.

Til að bóka kynnisflug vinsamlegast hafðu samband við verklegu afgreiðslu skólans í síma 514 9410, farsíma 825 1500 eða flightdesk(hjá)flugskoli.is

Skrá mig á námskeið!